Írska ríkisstjórnin hefur nú hætt við að hækka svokallaðan ferðamannaskatt sem innheimtur er af hendi flugfélaga sem starfa á Írlandi. Þess í stað mun ríkisstjórnin styðja flugmálayfirvöld í Dublin í því að reyna að auka flugumferð í landinu og fá aukinn fjölda ferðamanna til landsins.

Frá þessu er greint á vef Flightglobal en markmið írska flugmálayfirvalda verður að auka flugumferð á þremur stærstu flugvöllum landsins, í Dublin, Cork og Shannon.

Ferðamannaskatturinn var fyrst lagður á í mars 2009. Þannig þurfa flugfélögin að greiða ríkinu 10 evrur fyrir hvern seldan flugmiða. Í desember sl. var tilkynnt að skatturinn myndi hækka upp í 13 evrur og hefur það valdið miklum taugatitringi meðal hagsmunasamtaka í ferðaþjónustu á Írlandi. Leo Varadkar, samgöngu- og ferðamálaráðherra Írlands tilkynnti þó í gær að hætt yrði við hækkunina, þó með því skilyrði að írsk flugfélög myndu skuldbinda sig í því að auka fjölda ferðamanna í landinu.

Þegar upphaflega var tilkynnt um hækkunina á ferðamannaskattinum í desember kynntu írsk flugmálayfirvöld á móti áætlun um að gefa flugfélögum afslátt af lendingar- og aðstöðugjöldum á þremur stærstu flugvöllum landsins. Í stuttu máli felur afslátturinn í sér að fyrrnefnd gjöld verði ekki innheimt fyrir flugumferð umfram 23,5 milljón farþega. Með öðrum orðum geta flugfélögin aukið tíðni sína umfram það án þess að greiða lendingar- og aðstöðugjald á fyrrnefndum flugvöllum.