Írsk stjórnvöld eru í viðræðum við Evrópusambandið um neyðaraðstoð. Þetta kemur fram á vef Reuters fréttastofunnar.

Ef af verður er Írland annað landið sem þiggur slíka aðstoð frá ESB en Grikkland fær lánaða um 110 milljarða evra frá ESB á næstu þremur árum. Einnig hefur AGS samþykkt lán til Grikkja upp á 40 milljarða dala.

Lánakjör írska ríkisins hafa versnað mjög í undanfarnar vikur vegna ótta við að írska ríkið ráði ekki við björgun bankakerfisins þar í landi. Einnig er ótti um að almennir skuldabréfaeigendur verði látnir taka á sig afföll vegna þessa.

Írskir embættismenn hafa þráfaldlega neitað því að þeir muni fá aðstoð frá ESB og blaðafulltrúi fjármálaráðherra sagði að engar viðræður væru við sambandið. Heimildarmaður innan ESB sagði Reuters að mjög líklegt væri að Írar fengju neyðaraðstoð frá ESB.