Þáttaröðin vinsæla Game of Thrones sem gerð er eftir skáldsögum George R.R. Martin hefur notið gríðarlegra vinsælda víða um heim en fjórðu þáttaröðinni lauk fyrir stuttu. Eins og flestir vita er hluti þáttanna tekinn upp á Íslandi en heimur þáttanna spannar fjölmörg skálduð lönd og er því þátturinn tekinn upp víða um heim. Stærstur hluti þáttanna er tekinn upp í Norður Írlandi en samkvæmt Financial Times er írsk ferðaþjónusta nú þegar farin að njóta góðs af vinsældum þáttanna.

Norður-Írska kvikmyndamiðstöðin, Northern Ireland Screen, hefur fjárfest tæpum 12,5 milljónum breskra punda í framleiðslukostnað vegna þáttanna en þeir meta ábata þáttanna fyrir Norður-Írskt efnahagslíf vera í kringum 110 milljón breskra punda.

Hagfræðingur hjá Queen´s University í Belfast segir stór fjárframlög vegna þáttanna og hálaunastörf sem skapast vegna þeirra henta Norður-Írum vel þar sem hagkerfið byggist að megninu til upp af láglaunastörfum.