Markaðir ytra hafa tekið vel í fjárveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins til Írlands. Hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa hækkað í morgun og evran styrkst.

Líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hafa írsk stjórnvöld formlega sótt eftir fjárhagsaðstoð að fjárhæð 90 milljörðum punda. Þá eiga írsk stjórnvöld í viðræðum við þau bresku um 7 milljarða punda fjárveitingu sem mun standa utan samninganna við ESB og AGS. George Osborne fjármálaráðherra Breta sagði í útvarpsviðtali í morgun að efnahagir þjóðanna séu tengdir, sér í lagi bankakerfi þeirra, og því nauðsynlegt að Bretar komi að borðinu.

Þá hefur skuldabréfamarkaðurinn einnig tekið vel í fréttir um fjárhagsaðstoð. Á vef BBC segir að vaxtaálag á írsk skuldabréf sé nú komið niður fyrir 8% sem sýni að traust fjárfesta hafi aukist lítillega.