Svo gæti farið að Írland leggi bönkum landsins til aukið eigið fé til að koma í veg fyrir að eiginfjárhlutfall þeirra fari niður fyrir leyfileg mörk. Þetta hefur Bloomberg fréttaveitan eftir heimildarmanni sem vill ekki láta nafns síns getið.

Talsmaður írska fjármálaeftirlitisins vildi ekki tjá sig um málið en áhyggjur af auknu útlánatapi írskra banka hafa gert bönkunum erfitt fyrir að fjármagna sig.

Írsk stjórnvöld hafa ítrekað bent á í dag að ríkissjóður landsins sé fjármagnaður að fullu þar til um mitt næsta ár. Stjórnvöld hafa viðurkennt að eiga í viðræðum við utanaðkomandi aðila, Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, um fjárhagsvandræði landsins. Svo gæti farið að landið sæki fé úr sjóði Evrópusambandsins sem settur var á laggirnar í fyrra vegna fjármálakrísunnar. Írsk stjórnvöld hafa þó neitað því að landið hyggist fá ríkisaðstoð, en skilyrði fyrir ríkisaðstoð úr sjóði Evrópusambandsins er að ríkið óski að fyrra bragði eftir aðstoð.