Fjórði júlí er sá dagur þar sem Bandaríkjamenn fagna því að hafa sloppið undan oki breska heimsveldisins, en þetta árið hafa breskir þingmenn þó sem betur fer ástæðu til að lyfta glasi.

Á þingmannabar breska þingsins, The Strangers Bar, er nú hafin sala á bjórnum Iron Maiden's Trooper Ale, sem meðlimir þungarokksveitarinnar tóku þátt í að gera. Þingmaður Íhaldsflokksins, Mike Weatherley, sem er mikill aðdáandi Iron Maiden, lagði það til að bjórinn yrði tekinn í sölu á barnum en Weatherley á einmitt afmæli í dag.

Í frétt vefsíðunnar Shortlist er haft eftir Bruce Dickinson, söngvara Iron Maiden, að hann hafi alla tíð verið mikið fyrir hefðbundið enskt öl og því hafi honum liðið eins og himnarnir hefðu við honum tekið þegar þeir félagarnir voru beðnir um að búa til sinn eigin bjór. Bjórinn er framleiddur af brugghúsinu Robinson's.