Ríkiskaup fyrir hönd Menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar hafa auglýst eftir þátttakendum í forvali vegna byggingar íþrótta- og kennsluhúsnæðis fyrir Menntaskólann við Hamrahlíð en fyrirhugað er að halda svo lokað alútboð. Nýja íþrótta- og kennsluhúsnæðið mun rísa á lóð Menntaskólans við Hamrahlíð og felst verkið í hönnun og byggingu húsnæðisins. Byggingin verður um 2.000 fermetrar að stærð án tæknirýma, ganga, stiga, inn- og útveggja.

Samkvæmt útboðslýsingu nær verkefni verktaka til hönnunar og smíði hússins ásamt frágangi, innréttingum og hluta búnaðar þannig að allar kröfur verkkaupa og yfirvalda séu uppfylltar. Nýbyggingu MH er ætlað þríþætt hlutverk; að rúma aðstöðu fyrir fjölbreytta líkamsræktarkennslu, opna fyrir fjölgun um allt að 150 nemendur og leysa úr brýnustu húsnæðisþörfum skólans að að öðru leyti beint eða með endurskipulagi á eldra húsnæði. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist næsta vor og þeim verði lokið sumarið 2006. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í fyrirhuguðu útboði skulu senda inn þátttökutilkynningu ásamt umbeðnum upplýsingum til Ríkiskaupa eigi síðar en kl. 11.00 þann 19. október næstkomandi.