Írsk stjórnvöld ætla að draga úr ríkisútgjöldum um 20% og hækka skatta á næstu fjórum árum. Draga á úr kostnaði velferðarkerfisins um 2,8 milljónir evra og hækka tekjuskatt um 1,9 milljónir evra.

Þetta er meðal þess sem felst í samningi írskra stjórnvalda og AGS og ESB. Samkvæmt Bloomberg styttist í að samningar náist á milli aðilanna.

Ætlun stjórnvalda er að ná fjárlagahalla landsins í 3% af vergri landsframleiðslu árið 2014. Hlutfall hallans af landsframleiðslu verður um 12% á þessu ári, eða 32% ef fjármagn sem veita þarf bönkum landsins er talið með.