Írska ríkisstjórnin kom nánast öllum í opna skjöldu fyrir stundu þegar að hún tilkynnti að hún tryggði allar innistæður hjá sex helstu bönkum þjóðarinnar.

Gengi hlutabréfa þriggja stærstu banka Írlands hækkuðu töluvert eftir að tilkynnt var um þetta.

Þessi aðgerð kemur í kjölfarið á því að gengi hlutabréfa írskra banka féll feykilega mikið í gær.

Tryggingin nær til innistæða í Allied Irish Banks, Bank of Ireland, Anglo Irish Bank, Irish Life and Permanent, Irish Nationwide Building Society og The Educational Building Society.

Hún gildir fram til ársins 2010 og nær jafnframt til annarra skuldbindinga svo sem varinna skuldabréfa.

Sem fyrr segir þá féll gengi hlutabréfa írskra banka mikið í gær. Markaðsvirði Anglo Irish Bank, sem sérhæfir sig í fasteignalánum, féll um 45% og á sama tíma féll gengi hlutabréfa stærsta fasteignalánveitanda landsins, Irish Life and Permanent um 34%. Gengi Allied Irish Banks féll um 16% og Bank of Ireland fór niður um 15%.

Undanfarin ár hefur írska hagkerfið verið talið til fyrirmyndar fyrir þær þjóðir sem hafa nýlega gengið til liðs við Evrópusambandið, enda hefur hagvöxtur þar verið mikill og rekstrarumhverfi fyrirtækja afar hagfellt. Hinsvegar hefur lánsfjárkreppan gengið nærri tveim helstu stoðum uppgangar Írlands, byggingariðnaðar annarsvegar og fjármálastarsemi hinsvegar.

Nú er svo komið að írska hagkerfið er það fyrsta af hagkerfum evrusvæðisins sem er gengið inn í formlegt samdráttarskeið – það er að segja hagkerfið hefur dregist saman tvo fjórðunga í röð.