Sjö erlend fjármálafyrirtæki og vogunarsjóðir eru á lista yfir þá sem eiga 1% krafna eða meira í þrotabú Glitnis og Kaupþings. Þar af er 21 erlent fyrirtæki á lista yfir þá kröfuhafa sem eiga 1% eða hærri kröfu í þrotabú Kaupþings og jafn margir á lista yfir þá 24 sem eiga 1% eða hærri kröfur í þrotabú Glitnis. Írski sjóðurinn Burlington Loan Managent er helsti kröfuhafi Glitnis með 8,46% hlut. Félagið er jafnframt fimmti stærsti kröfuhafi Kaupþings með 3,49% af almennum kröfum. Þrotabú Kaupþings á svo 2% kröfu á þrotabú Glitnis. Burlington Loan Management var stofnaður árið 2009 og er hann í eigu bandaríska sjóðsins Davidson Kempner.

Eignarhaldið á þrotabúum Glitnis og Kaupþings er á meðal þess sem fram kemur í svari Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar. Ríkið á 13% hlut í Arion banka á móti kröfuhöfum Kaupþings en 5% í Íslandsbanka á móti kröfuhöfum Glitnis. Í svörum Steingríms kemur fram að fulltrúar kröfuhafa þrotabúanna fari með stjórn á málefnum bankanna.

Einar spurði m.a. hverjir væru 50 stærstu kröfuhafar Glitnis og Kaupþings og þar með 50 stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka miðað við nýjustu stöðu.

Í svari Steingríms segir að það sé ekki í aðstöðu til að krefjast þess að slitastjórnir Glitnis og Kaupþings veiti þær upplýsingar sem Einar hafi óskað. Hins vegar búi það yfir upplýsingum og þjóðerni þeirra sem eigi 1% eða hærra hlutfall krafna í þrotabúin.

Svar Steingríms og hluthafalistana má nálgast á vef Alþingis .

Ítarlega greiningu á ítökum Davidson Kempner í íslensku viðskiptalífi má lesa hér .