„Þetta smjör er orðið of gamalt til að við getum notað það í innlenda matarframleiðslu. Þannig að við verðum að bregða á það ráð á næstu mánuðum að nota þetta smjör sem íblöndunarefni í kálfafóður, þá er þessari sögu írska smjörsins lokið,“ segir Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar (MS) í samtali við Fréttablaðið.

Þar kemur fram að í frystigeymslu á Akureyri séu geymd 32 tonn af írska smjörinu sem flutt var inn fyrir síðustu jól vegna mögulegs skorts á smjöri. Í heildina voru flutt inn 90 tonn af smjörinu.

MS hefur verið harðlega gagnrýnt að undanförnu eftir úrskurð Samkeppniseftirlitsins, þar sem það lagði 370 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið fyrir að brjóta gegn 11. grein samkeppnislaga. Fyrirtækið stýrir um 99 prósentum af öllum markaði með mjólkurafurðir.