*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 3. nóvember 2020 09:13

Írskt félag í mál við Landsbankann

Félagið stefndi Landsbankanum fyrir þýskum dómstóli í fyrra. Krefjast 630 milljóna króna vegna meints tjóns af völdum bankans.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í nýjasta árshlutauppgjöri Landsbankans kemur fram að bankinn standi í málaferlum á þýskri grundu. Saga málsins er sú að í mars á síðasta ári stefndi írskt félag bankanum fyrir þýskum dómstóli og gerði kröfu um 3,9 milljónir evra (um 630 milljónir króna) greiðslu, auk vaxta, vegna meints tjóns sem írska félagið telur Landsbankann hafa valdið félaginu í tengslum við gjaldþrot þýsks félags.

„Írska félagið heldur því fram að lánveitingar gamla Landsbanka Íslands á árinu 2005 til hóps félaga, þ.m.t. þýska félagsins, og lánveitingar Landsbankans á árinu 2014 til þýska félagsins hafi gert þýska félagið ógjaldfært og að Landsbankinn hafi, í þeim tilgangi að styrkja stöðu bankans, staðið í vegi fyrir því að forsvarsmenn þýska félagsins hafi óskað eftir gjaldþroti þess á árinu 2013. Írska félagið heldur því fram að bankinn hafi með því valdið öðrum lánardrottnum þýska félagsins tjóni, þar með talið írska félaginu," segir í skýringu í árshlutauppgjörinu þar sem farið er yfir mikilvæg dómsmál gegn Landsbankanum og dótturfélögum.

Í skýringum bankans segir að frá því að stefna hafi verið birt hafi verið veittur frestur í málinu á meðan aðilar leituðu sátta. Nú teljist ólíklegt að sættir náist og því sé líklegt að málarekstur hefjist á komandi mánuðum. Að lokum er tekið fram að bankinn hafni öllum kröfum stefnanda.