Írskir þingmenn samþykktu í nótt að vísa stjórn bankans IBRC frá og láta hann fara á hliðina. Með þessu grynnkar á skuldum írska ríkisins sem tók á sínar herðar ábyrgðir á skuldum bankanna þegar fjármálakreppan skall á haustið 2008. Bankinn hefur ekki verið lengi til en hann var hélt utan um lélegar eignir Anglo Irish bank og Irish Nationwide og má flokkast undir svokallaða vonda banka.

Reuters-fréttastofan likir starfsháttum stjórnenda Anglo Irish Bank við það sem sést í mafíósamyndum enda hafi útlánastarfsemin verið glæpsamleg. Útlánagleðin hafi ýtt undir fasteigna- og fjármálahrunið og valdið því að írska fjármálakerfið lenti í vandræðum. Réttað verður yfir þremur fyrrverandi stjórnendum Anglo Irish Bank, þar á meðal yfir bankastjóranum.

EIgnir IBRC, sem samanstanda af fasteignaveðum, verða fluttar í eignastýringarfyrirtækið National Asset Management Agency (NAMA) sem heldur utan um eignasafn sem er með léleg eða verðlítil veð á bak við sig, s.s. í fasteignum sem hafa fallið mikið verði.