Ísafjarðarbær hyggur á 200 milljóna króna lántöku frá Lánasjóði sveitarfélaga til fimmtán ára sem tryggt yrði með veði í tekjum sveitarfélagsins.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Besta á Ísafirði en Jón H. Oddsson, fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar, lagði fram erindi þessa efnis.

Bókunin er svohljóðandi:

,,Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mælir með að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykki, að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga, að fjárhæð kr. 200.000.000.- til 15 ára, í samræmi við lánstilboð, sem liggur fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til að endurfjármagna skammtímalán Ísafjarðarbæjar við Lánasjóð sveitarfélaga á gjalddaga í mars 2009. Lántaki skuldbindur sig til að ráðstafa láninu til framangreinds verkefnis, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006,“ segir í bókun fjármálastjóra.

Sjá nánar á vef Bæjarins Besta.