Útgjöld Ísafjarðarbæjar verða skorin niður um 201 milljón króna samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2009.

Er þetta til viðbótar við sparnaðarráðstafanir sem hafa þegar verið settar fram.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Bestu á Ísafirði.

Þar kemur fram að tillaga að fjárhagsáætlun, sem lögð var fram 22. janúar, gerir ráð fyrir að skatttekjur (útsvar og fasteignaskattur) verði um 1.300 milljónir króna. Er upphæðin nálægt áætlun ársins 2008, þrátt fyrir hækkun útsvars úr 13,03% í 13,28%.

Þá kemur fram að 542,8 milljónir króna eru áætlaðar sem framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Skatttekjur verða tæpar 1.860 milljónir króna. Aðrar tekjur bæjarsjóðs eru áætlaðar 353 milljónir. Tekjur stofnana eru áætlaðar 581 milljón króna.

Heildartekjur Ísafjarðarbæjar árið 2009 eru áætlaðar 3,1 milljarður, en inni í þeirri fjárhæð eru millifærslur, svo sem innri leiga húseigna, svo ekki er um að ræða innkomnar tekjur að öllu leyti.

Sjá nánar á vef Bæjarins Bestu.