*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 14. ágúst 2017 17:39

Ísak vill verða formaður SUS

Ísak Einar Rúnarsson gefur kost á sér í embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna á sambandsþingi þess sem fram fer 8-10. september næstkomandi.

Ritstjórn

Ísak Einar Rúnarsson gefur kost á sér í embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna á sambandsþingi þess sem fram fer 8-10. september næstkomandi. Ásamt Ísaki í framboði eru þau Jórunn Pála Jónasdóttir, sem býður sig fram til varaformanns, Hólmfríður Erna Kjartansdóttir, sem býður sig fram til annars varaformanns, Kristófer Már Maronsson sem býður sig fram til gjaldkera og Íris Ósk Gísladóttir sem gefur kost á sér í ritara. 

Ísak Einar er 25 ára og lauk B.A. prófi í Hagfræði í júní 2017 frá Háskóla Íslands en sótti einnig skiptinám við Stanford Háskóla í Kaliforníu. Ísak situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og var einn kosningastjóra flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar 2016. Ísak var virkur í starfi stúdentahreyfingarinnar en hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands árið 2014-2015 og formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta árið 2013-2014. Ísak starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar sem verkefnastjóri fyrir Háskóla Íslands. Þá er Ísak einn stofnanda vefmiðilsins Róms þar sem hann situr í ritstjórn. 

Jórunn Pála: Varaformaður

Jórunn Pála Jónasdóttir er 28 ára lögfræðingur úr HÍ og starfar á Rétti lögmannsstofu. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá MR 2009. Jórunn Pála hefur mikla reynslu af félagsstörfum en hún gegndi embætti formanns Landsamtaka íslenskra stúdenta árin 2014-2015. Þá starfaði hún jafnframt sem hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands og formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta við sama skóla. Ennfremur hefur Jórunn Pála sinnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hún var á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014, situr í hverfisráði Breiðholts og er varamaður í Velferðarráði Reykjavíkurborgar.

Hólmfríður Erna: Annar varaformaður

Hólmfríður Erna Kjartansdóttir er 27 ára, borinn og barnfæddur Selfyssingur en hún er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi. Hólmfríður Erna starfar sem viðskiptastjóri hjá Bláa lóninu en stundar jafnframt nám í íslensku við Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokinn. Hún sat í stjórn Hersis, félags ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu á árunum 2005-2013 og sem varaformaður félagsins  árin 2008-2010 og 2013-2014. Þá hefur Hólmfríður Erna einnig setið í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksinsflokksins í Suðurkjördæmi. Hólmfríður Erna á eina stúlku, Ásdísi Ingu en maki hennar, Unnar Steinn Bjarndal, hrl. og lektor við Háskólann á Bifröst, á einnig Þórunni Fríðu 11 ára og Matthías 7 ára.

Kristófer Már: Gjaldkeri

Kristófer Már Maronsson er 23 ára faðir sem er fæddur og uppalin á Akranesi en hann fékk einnig að kynnast Ástralíu um nokkurt skeið á uppvaxtarárum sínum. Kristófer er búsettur á Sauðárkróki, nemi í hagfræði við HÍ og starfar á skrifstofu aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands árin 2016-17 en var einnig framkvæmdastjóri ráðsins og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við HÍ árin 2015-2016. Kristófer á eina stúlku, Jónu Rebekku sem er sex mánaða gömul.

Íris Ósk: Ritari

Íris Ósk Gísladóttir er 29 ára Akureyringur og situr í stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Íris Ósk leggur stund á laganám við Háskólann á Akureyri og starfar fyrir norðurslóðasetrið Norðurslóð. Hún er móðir tveggja barna, þeirra Natalíu Rósar 11 ára og Mikaels Myrkva  7 ára. 

Stikkorð: SUS framboð Ísak