Rio Tinto Alcan á Íslandi vill banna með lögum að verkfallsaðilar geti meinað yfirmönnum að lesta ál um borð í skip meðan á verkfallinu stendur. Óskað var eftir því að sýslumaður höfuðborgarsvæðisins leggi á lögbann við aðgerðum verkfallsaðila í verkalýðsfélaginu Hlíf þar sem komið er í veg fyrir að stjórnendur ISAL lesti áli um borð í skip til útflutnings.

Verkalýðsfélagið Hlíf, sem stendur fyrir verkfallinu, hefur hingað til meinað yfirmönnum fyrirtækisins að lesta áli um borð í skip til útflutnings og sölu erlendis. Að sögn upplýsingafulltrúa ISAL hefðu þessar aðgerðir verkfallsaðila grafalvarlegar afleiðingar fyrir ISAL og svipti fyrirtækið tekjum um ófyrirséðan tíma þar eð verkfallið er ótímabundið.

ISAL telur að yfirmönnum félagsins, sem eru 25 talsins, sé heimilt að flytja álið út. Hver farmur er um eins milljarðs króna virði, svo um er að ræða talsverðar fjárhæðir. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað ítarlega um hafa kjarasamningar milli ISAL og verkalýðsfélaganna staðið yfir dágóða stund, en árangurslaust.