Ísal, dótturfélag Rio Tinto á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík fyrir utan Hafnarfjörð skrifuðu í gærkvöldi undir kjarasamning við fimm stéttarfélög starfsmanna að því er RÚV greinir frá.

Samningurinn, sem gildir fram á næsta sumar, verður borinn undir atkvæði 400 félagsmanna starfsmannafélaganna fyrir 13. nóvember næstkomandi, en þó samningamenn þeirra hefðu viljað fá lengri samning segist Kolbeinn Gunnarsson formaður stéttarfélagsins Hlífar vera nokkuð sáttur við efni samningsins.

Segir hann engin áform hafa verið á borðinu um lengri samning af hálfu álversins, og þetta því verið lendingin. Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur Rio Tinto hótað lokun álversins í Straumsvík vegna hás raforkuverðs, en verkfall starfsmanna var upphaflega boðað 16. október síðastliðinn áður en því var frestað.

Kolbeinn segir að samningurinn sé í samræmi við Lífskjarasamningana, en upphaflega var samið um 24 þúsund króna launahækkun í mars síðastliðnum, með þeim fyrirvörum sem álverið lagði upp með frá byrjun um að nýir raforkusamningar næðust við Landsvirkjun fyrir lok júní. Samningurinn féll svo úr gildi þegar það náðist ekki og var þá deilunni vísað til Ríkissáttasamherja.