Íslensk-ameríska skoðaði möguleg kaup á Þykkvabæjarkartöflum hf. en ekkert varð af kaupum. „Við skoðuðum fyrirtækið en það fór ekkert lengra,“ sagði Egill Ágústsson, forstjóri Ísam, við Viðskiptablaðið.

Markús Ársælsson, stærsti eigandi Þykkvabæjar, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að KPMG væri enn með fyrirtækið í sölumeðferð.

Á fjórða tug einstaklinga eru hluthafar í fyrirtækinu og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa eigendur Þykkvabæjar komið sér saman um lágmarksverð sem þeir væru tilbúnir að selja fyrirtækið á.

Ísam var stofnað árið 1964 og er í eigu Kristins ehf. Í Vestmannaeyjum. Fyrirtækið flytur inn og markaðssetur þekktar gæðavörur. Ísam er einkaumbjóðandi Procter & Gamble á Íslandi. Ísam á Frón, Ora, Kexsmiðjuna á Akureyri og Mylluna.