Norræni fjárfestingabankinn og Isavia hafa gert með sér lánasamning að fjárhæð 32 milljónir evra, sem jafngildir um 5 milljörðum króna, vegna framkvæmda og endurbóta á Keflavíkurflugvelli til þess að auka afköst flugvallarins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fjárfest verður í nýjum búnaði til flugverndar, stækkun á komu- og innritunarsvæðum, flugvélastæðum, endurbótum á flugbrautum og leiðsögukerfum auk annarra framkvæmda. Alls eru fyrirhugaðar afkastaaukandi fjárfestingar fyrir 100 milljónir evra (15 milljarða króna) til ársins 2016, sem ætlað er að auka afkastagetu flugvallarins.

„Farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu árin. Fyrirhugaðar fjárfestingar sem Norræni fjárfestingarbankinn fjármagnar að hluta munu koma til móts við aukna eftirspurn eftir þjónustu og auka möguleika á samkeppni flugfélaga í flugi til og frá Íslandi,“ segir Henrik Normann, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans.

„Miklar fjárfestingar eru nauðsynlegar á Keflavíkurflugvelli til þess að mæta síauknum kröfum um aukna afkastagetu og þjónustu. Áætlað er að gerð aðalskipulags og þróunaráætlunar fyrir flugvöllinn ljúki á næsta ári og þá skýrist betur hvaða leið verður farin til þess að mæta langtímaþörfum flugvallarins og notenda hans. Við fögnum samstarfinu við Norræna fjárfestingarbankann og teljum það fyrirtækinu til framdráttar að vera með svo öflugan bakhjarl sem lánveitanda,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.