Isavia ohf. hefur kært úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, um heimild til stöðvunar flugvélar Air Lease Corporation (ALC), sem Wow hafði til umráða, til Landsréttar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Umrædd vél hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá falli Wow air til tryggingar um tveggja milljarða skuldar félagsins við Isavia. Aðeins um 87 milljónir af þeirri upphæð er tilkominn vegna notkunar vélarinnar sem kyrrsett er.

ALC hafði krafist þess að fá vélina afhent með beinni aðfarargerð en héraðsdómur hafnaði því. Aftur á móti féllst dómurinn ekki á að heimilt væri að nýta vélina til tryggingar milljarðanna tveggja heldur aðeins milljónanna 87.

„Að mati Isavia er [...] að finna misvísandi umfjöllun í forsendum úrskurðarins um túlkun á efnislegri heimild til beitingar á því ákvæði loftferðalaga sem heimilar stöðvun flugvélar. Umfjöllunin samræmist ekki túlkun ákvæðisins fram að þessu. Þá samræmist hún heldur ekki eldri dómaframkvæmd og dómafordæmum erlendis í samskonar málum, þar með talið í Bretlandi og Kanada,“ segir í tilkynningunni.

„Verulegir hagsmunir eru tengdir núverandi framkvæmd loftferðalaga. Hún auðveldar flugfélögum að taka ákvörðun um að hefja flug til landsins. Ef breyting verður á þessu gæti okkur til dæmis verið nauðugur sá kostur að óska eftir tryggingu frá þeim flugfélögum sem hyggjast hefja flug til Íslands,“ segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia.