Aðfarabeiðni ALC, bandarísks leigufélags flugvélar undir merkjum Wow air, sem Isavia hefur kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá gjaldþroti félagsins, verður mótmælt af hálfu opinbera hlutafélagsins að því er mbl.is greinir frá.

Aðfarabeiðnin var lögð fram í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness í kjölfar þess sem sagt var frá í fréttum í morgun að Isavia neitaði að láta flugvélina af hendi þrátt fyrir að greidd hafi verið skuld vegna lendingargjalda þessarar tilteknu vélar.

Greiddi flugvélaleigufélagið skuldina eftir úrskurð dómstóla um að ekki væri heimilt að halda vélinni fyrir öðrum skuldum en sem til komu af henni sjálfri, en Isavia kyrrsetti vélina sem tryggingu gegn tveggja milljarða króna skuld Wow air vegna m.a. lendingargjalda.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um vildi Isavia ekki ganga að skuldinni af ótta við að ýta Wow air í gjaldþrot , en félagið varð gjaldþrota 28. mars síðastliðinn. Hefur ALC íhugað að tilkynna fyrirgreiðsluna sem umboðssvik .

Nam skuldin vegna vélarinnar sjálfrar 87 milljónum króna, sem ALC telur uppfylla úrskurð héraðsdóms og snýst aðfararbeiðnin því um að kyrrsetningu vélarinnar verði aflétt.

Isavia hefur hins vegar áfrýjað úrskurðinum til Landsréttar og segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi félagsins að aðfarabeiðninni verði mótmælt á þeim forsendum að málið sé til meðferðar hjá Landsrétti.