Isavia ohf. hefur valið Vörð tryggingar til að tryggja starfsemi sína sem og starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga næstu þrjú árin að því fram kemur í fréttatilkynningu AP almannatengsla. Isavia valdi Vörð til samstarfs eftir útboð sem öll íslensk tryggingafélög tóku þátt í. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar, skrifuðu undir samning þar að lútandi á Reykjavíkurflugvelli í dag. Verkefni Varðar er umfangsmikið, þar sem hjá Isavia starfa um 700 manns og starfsemin nær yfir fjölbreytileg verkefni. Þar má helst nefna rekstur og viðhald á þeim flugvöllum sem Isavia hefur verið falin ábyrgð á, þar á meðal Keflavíkurflugvelli. Einnig annast Isavia alla flugleiðsöguþjónustu jafnt fyrir innanlandsflug sem alþjóðlegt flug yfir Norður-Atlantshafi og rekur Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tryggingar Varðar munu ná yfir allar lögboðnar og samningsbundnar tryggingar auk frjálsra trygginga Isavia á Íslandi.