Forsvarsmenn Isavia neita því að félagið gangi erinda Icelandair við úthlutun brottfarartíma fyrir flug og harmar að Wow air haft hætt við Ameríkuflug sitt og flug til Stokkhólms. Skúli Mogensen , forstjóri og aðaleigandi Wow air, tilkynnti þetta í morgun og gagnrýndi Isavia fyrir að fara ekki að tilmælum Samkeppniseftirlitsins.

„Ég hélt í einfeldni minni að tilgangurinn væri að vernda hagsmuni neytenda og stuðla að samkeppni í öllum greinum en ekki að viðhalda hér einokun,“ sagði Skúli.

Isavia segir þvert á móti að Wow air hafi verið úthlutaðir afgreiðslutímar í samræmi við viðurkenndar aðferðir en bætir við að ekki sé hægt að úthluta sama afgreiðslutímanum tvisvar. Bent er á að óháður aðili annast úthlutun og samræmir afgreiðslutíma á upphafs- og endastöð hvers flugs. Isavia kemur ekki að úthlutun afgreiðslutíma og getur ekki haft afskipti af störfum samræmingarstjóra, enda er það óheimilt samkvæmt reglum.

Tilkynning Isavia orðrétt:

„Við hörmum að WOW Air sjái sér ekki fært að efna til aukinnar samkeppni og nýta afgreiðslutíma sem félaginu voru úthlutaðir í samræmi við viðurkenndar aðferðir í starfsemi flugfélaga og flugvalla á alþjóðavísu. Isavia kýs ekki að eiga í deilum við viðskiptavini sína en bent skal á að ekki er hægt að úthluta sama afgreiðslutíma tvisvar. Félagið hefur þegar ráðast í stækkun flugstöðvarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli svo mæta megi aukinni eftirspurn. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun á næsta ári. Misskilningur er að ríkið komi að fjármögnun framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Notendur greiða.“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia.

Samræmdar evrópskar reglur

Úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum fer eftir samræmdum evrópskum reglum sem lögfestar eru hérlendis. Óháður aðili annast úthlutun og samræmir afgreiðslutíma á upphafs- og endastöð hvers flugs. Isavia kemur ekki að úthlutun afgreiðslutíma og getur ekki haft afskipti af störfum samræmingarstjóra, enda er það óheimilt samkvæmt reglum.

17 flugfélög í samkeppni

Isavia annast rekstur og uppbyggingu Keflavíkurfugvallar. Eitt af helstu markmiðum í starfi félagsins er að auka tíðni, og þar með samkeppni, í áætlunarflugi til og frá landinu. Til þess að ýta undir fjölgun flugleiða býður Isavia tímabundinn afslátt af lendingargjöldum samkvæmt sérsniðnu hvatakerfi. Starfsmenn félagsins hafa undanfarin ár fundað með fjölmörgum  flugfélögum til þess að kynna þjónustu flugvallarins og Ísland sem áfangastað.  Markaðsstarfs félagsins hefur m.a. skilað sér með þeim hætti að nú halda 17 flugfélög uppi áætlunarflugi til Íslands yfir sumarmánuðina og fimm til sex flugfélög allt árið. Til samanburðar voru fyrir 10 árum einungis sjö flugfélög með tímabundna áætlun og aðeins tvö með áætlun allt árið. Fullyrðingar um að Isavia stuðli ekki að samkeppni í áætlunarflugi eiga því ekki við rök að styðjast.

Nægir afgreiðslutímar

Nægir afgreiðslutímar eru í boði á Keflavíkurflugvelli utan einnar og hálfrar klukkustundar að morgni og síðdegis. Fjöldi flugfélaga sem geta fengið úthlutað afgreiðslutíma á þessum tveimur háannatímum takmarkast af stærð flugstöðvarinnar og fjölda flugvélastæða við hana. Góður árangur hefur náðst í að auka nýtingu flugstöðvarinnar með dreifðri notkun. Frekari stækkun til aukinnar afkastagetu er mjög kostnaðarsöm.

Nýtti ekki samkeppnisákvæði

Samkeppnisákvæði í reglugerð um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum veitir nýjum aðilum á tiltekinni flugleið forgang að helmingi nýrra og lausra afgreiðslutíma. WOW Air nýtti sér ekki þetta ákvæði.

Isavia hefur áfrýjað ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að félaginu beri að hlutast til um störf óháðs samræmingarstjóra. Félagið telur ákvörðunina vera óeðlilegt inngrip í samræmdar EES-reglur og til þess fallin að skaðað samkeppni í flugi til og frá landinu og kunni að letja erlend flugfélög sökum þess að Samkeppniseftirlitið hygli flugfélögum á heimaflugvelli.