Deila Isavia og ALC hefur staðið siðan Wow air varð gjaldþrota í lok mars. Þá kyrrsetti Isavia eina af Airbus -farþegaþotum Wow , en það var vél sem flugfélagið var með í leigu hjá ALC . Á þessum tíma nam skuld Wow við Isavia um tveimur milljörðum króna. Í kjölfar kyrrsetningar farþegaþotunnar krafðist Isavia þess að ALC greiddi skuld Wow við Isavia .

Þann 17. júlí komst Héraðsdómur Reykjaness að þeirri niðurstöðu að ALC þyrfti einungis að greiða skuldirnar sem tengdust kyrrsettu vélinni en ekki allar skuldir Wow við Isavia . Úrskurðaði dómstóllinn að Isavia ætti að láta farþegaþotuna af hendi sem félagið gerði og var vélinni flogið af landi brott þann 19. júlí.

Forsvarsmenn Isavia voru ósáttir við úrskurðinn og kröfðust þess að Landsréttur felldi hann úr gildi. Niðurstaða í því máli leit dagsins ljós nú fyrir helgi þegar Landsréttur hafnaði kröfu Isavia líkt og RÚV greindi frá í gærkvöldi.

Er það mat Landsréttar að þar sem ALC hafi fengið Airbus -farþegaþotuna afhenda í júlí hafi Isavia ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu héraðsdóms hnekkt og var þessum hluta því vísað frá. Sömu sögu má segja um þá niðurstöðu héraðsdóms að málskot fresti ekki réttaráhrifum. Þeim hluta var einnig vísað frá.

Þar sem Airbus -farþegaþotan var kyrrsett í tæpa fjóra mánuði vegna deilunnar er fastlega reiknað með því að ALC sé að undirbúa skaðabótamál á hendur Isavia .

Þess má geta að ALC er með um 9 milljarða króna kröfu í þrotabú Wow air og Isavia er með kröfu upp á 2.2 milljarða króna í búið.