Isavia ohf. hyggst stefna eiganda sínum til greiðslu á rúmlega tveggja milljarða skuld að því er Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi félagsins hefur staðfest við Viðskiptablaðið. Félagið telur upphæðina samsvara skaðabótum vegna tjóns sem félagið varð fyrir eftir að Héraðsdómur Reykjaness aflétti kyrrsetningu á þotu leigufélagsins ALC. Þetta kemur fram á í kröfubréfi Isavia til ríkislögmanns en Kjarninn sagði fyrst frá.

Í lok mars kyrrsetti Isavia vél sem Wow air hafði leigt af ALC en þeirri vél var ætlað að tryggja greiðslu tveggja milljarða skuldar Wow við Isavia. ALC krafðist þess að fá vélina afhenta með beinni aðför. Því var hafnað í héraðsdómi en einnig sagt í úrskurðinum að umrædd vél gæti aðeins verið til tryggingar þeirrar skuldar sem hún stofnaði til.

Málið gekk til Landsréttar sem staðfesti úrskurðarorð héraðsdóms en á öðrum forsendum. Þann úrskurð felldi Hæstiréttur úr gildi með dómi sínum þar sem aðilar höfðu í raun lýst sig sammála úrskurðarorðinu. Málinu var því vísað á ný til Landsréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms.

Í kjölfarið greiddi ALC skuldina sem tengdist umræddri vél, um 80 milljónir króna, og krafðist þess því næst að kyrrsetningu yrði aflétt. Fallist var á það og því hafnað að fresta réttaráhrifum úrskurðarins. Flugvélinn var flogið af landi brott í júlí.

Isavia telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa og að héraðsdómari málsins hafi sýnt af sér „saknæma og ólögmæta háttsemi við úrlausn málsins.“ Bréf þessa efnis var sent ríkislögmanni fyrir sléttri viku og líklegt að málinu verði stefnt fyrir dóm.