Það er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á hlutabréfaverði í þessari viku þar sem mörg fyrirtæki hafa birt afkomutölur sínar og tími aðalfunda stendur nú yfir, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Líklegt er að þróun krónunnar komi til með að hafa áhrif á verð hlutabréfa í vikunni. Ástæðan er sú að fjárfestar hafa í miklum mæli fjármagnað hlutabréfakaup í erlendri mynt og þegar gengi krónu lækkar, hækka skuldir fjárfesta og þá aukast líkurnar á hagnaðartöku, segir greiningardeildin.

Uppgjör Bakkavarar fyrir fjórða ársfjórðung 2005 verður birt í vikunni en spá greiningardeildar Íslandsbanka gerir ráð fyrir um 9,6 milljóna punda hagnaði á fjórðungnum eða 30,3 milljóna punda hagnaði fyrir árið í heild.