Útlit er fyrir myndarlegan afgang af vöru- og þjónustujöfnuði í ár. Þá eru horfur á að í heild verði undirliggjandi viðskiptaafgangur talsverður næstu misserin og hafa horfurnar batnað töluvert hvað það varðar að undanförnu. Þetta segir Greining Íslandsbanka í nýrri úttekt á heimasíðu sinni.

Þar segir að á síðasta ári hafi verið sáralítill afgangur af vöruskiptum og þjónustuviðskipti hafi dregið vagninn á tímabilinu. Þar hafi ferðaþjónusta komið sterk inn. Nú séu hins vegar horfur á góðum vexti í vöruútflutningi og talverðum afgangi af vöruskiptum á þessu ári.

„Leggst þar ýmislegt á jákvæðu hliðina. Til að mynda hafa viðskiptakjör við útlönd batnað verulega. Mikil lækkun eldsneytisverðs frá miðju síðasta ári gæti ein og sér haft í för með sér gjaldeyrissparnað sem nemur u.þ.b. 30 mö. kr. samanborið við síðasta ár miðað við tiltölulega varfærna forsendu um meðalverð hráolíu á bilinu 60-70 USD/tunnu. Fleiri innfluttar hrávörur hafa lækkað í verði, á meðan verð okkar helstu útflutningsafurða hefur ýmist hækkað eða staðið í stað.“

Einnig er fjallað um loðnuútflutning og því spáð að loðnuvertíðin þennan vetur gæti orðið í líkingu við vertíðina 2013 þegar útflutningurinn nam 443 þúsund tonnum. Einnig muni iðnaðarútflutningur líklega aukast nokkuð í magni mælt í ár.

Þá segir einnig að líkur séu á áframhaldandi nettóinnflæði á gjaldeyrismarkaði á næstunni og Seðlabankinn muni trúlega halda áfram að safna gjaldeyri í forðann á komandi mánuðum og misserum. Það sé þó að því gefnu að ekki verði tekin stór skref í afnámi gjaldeyrishafta á tímabilinu sem breyti þessum aðstæðum verulega.

Nánar á vefsíðu Íslandsbanka .