Íslandsbanki var hástökkvari dagsins í Kauphöllinni en bankinn hækkaði um 4,6% á sínum öðrum viðskiptadegi. Gengi bankans stendur nú í 99 krónum á hlut sem er 25% yfir útboðsgenginu sem var 79 krónur. Alls var 5,3 milljarða króna velta í Kauphöllinni, þar af var þriðjungur með hlutabréf Íslandsbanka.

Icelandair hækkaði um 4,3% í dag og vann því upp 3,8% lækkunina í gær. Gengi flugfélagsins hefur verið nokkuð sveiflukennt að undanförnu, sér í lagi eftir að tilkynnt var um hlutafjárútboð Play.

Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði aftur í dag og hefur nú hækkað um 13% frá því að tilkynnt var fyrir viku síðan um 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsbrota við Samskip á árunum árin 2008-2013.

Sjávarútvegsfyrirtækin lækkuðu mest allra félaga í Kauphöllinni í dag, þó í takmarkaðri veltu. Síldarvinnslan lækkaði um 0,6% og hefur alls lækkað um 4,3% frá dagslokagenginu á fyrsta viðskiptadeginum 27. maí síðastliðinn Brim lækkaði um 1,4% en félagið hefur nú lækkað um tæp 10% á rúmum mánuði þegar það náði sínu hæsta gengi frá skráningu.