ISB Luxembourg S.A. hefur tekið til starfa og komið á fót einkabankaþjónustu og eignastýringu í Lúxemborg. Þjónustan er miðuð að eignamiklum einstaklingum og fyrirtækjum á Norðurlöndum. Útlánastarfsemi útibús Íslandsbanka í Lúxemborg mun færast undir hinn nýja banka. Með breytingunum er frekari áhersla lögð á lausnir sem mæta fjárhagslegum þörfum viðskiptavina og jafnframt alhliða þjónustu sem sniðin er að aukinni alþjóðlegri starfsemi Íslandsbanka segir í tilkynningu bankans.

Íslandsbanki hefur starfrækt útibú í Lúxemborg frá því í júní árið 2003. Skapast hefur traustur grunnur fyrir frekari vöxt, þar sem byggt er á traustum viðskiptasamböndum við banka á Norðurlöndum og ráðgjöf og lánafyrirgreiðslu til lántakenda á Norðurlöndum í völdum atvinnugreinum. Í árslok 2004 var útlánasafn Íslandsbanka í Lúxemborg um 30 milljarðar íslenskra króna.

Lúxemborg er ein helsta fjármálamiðstöð Evrópu og stöðugleiki í efnahagslífi og stjórnmálum. Þar sem Lúxemborg var fyrsta miðstöð þjónustu einkabanka innan Evrópusambandsins og er stærsta miðstöð verðbréfasjóða í Evópu, þá býður Lúxemborg upp á víðtæka og fjölbreytta fjármálaþjónustu, sem ISB Luxembourg S.A. mun virkja í þágu viðskiptavina sinna segir í tilkynningunni.