Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að halda stýrivöxtum Seðlabankans óbreyttum. Þetta var úr takti við spár greiningardeilda bankanna sem höfðu gert ráð fyrir lækkun upp á 25 punkta.

Greining Íslandsbanka segir peningastefnunefnd Seðlabankans hafa gefið óvissu vegna komandi kjarasamninga meira vægi en hún hafi gert ráð fyrir.  Þess vegna sé líklegt að stýrivextir haldist óbreyttir við næstu vaxtaákvörðun þann 18. mars nk. þar sem ólíklegt sé að kjarasamningar verði í höfn þá. Greiningardeildin veltir því hins vegar fyrir sér hvort hvort ekki hefði verið rúm til þess að lækka vexti frekar núna og bregðast við niðurstöðu kjarasamninga þegar þar að kæmi.

Þá lækkar Seðlabankinn jafnframt verðbólguspána umtalsvert frá síðustu spá sem birt var í nóvember. Er það í takti við væntingar greiningardeildarinnar og gott betur. Bankinn spái 1,4% verðbólgu fyrir árið í ár, og verðbólga mælist 2,7% yfir árið 2016. Til samanburðar geri greiningardeildin ráð fyrir 2,4% verðbólgu þetta ár og 2,8% verðbólgu á því næsta.

„Verðbólguspár Seðlabankans hafa undanfarið ofspáð verðbólgu til skamms og meðallangs tíma, en nú virðist okkur sem bankinn kunni að vera lagstur á hina hliðina og verðbólguspá þetta heldur bjartsýn,“ segir greiningardeildin.

Lesa má umfjöllun Greiningar Íslandsbanka hér .