Miklar hækkanir hafa verið á FL Group að undanförnu. Félagið hefur hækkað um 16% frá því um miðjan síðastliðinn föstudag, segir greiningardeild Íslandsbanka. Það er verðmætaaukning um rúma 23 milljarða.

Forsendur þessarar miklu hækkunar er að finna í tilkynningu FL Group um skráningu Icelandair Group í Kauphöll Íslands og sölu annarra minni félaga.

Hin mikla hækkun hefur vakið mikla eftirtekt fjárfesta, segir greiningardeildin, því ætla má að verðmæti félaganna sem FL Group hyggst selja hafi þegar verið verðlögð inni í hlutabréfaverði FL Group.

Greiningardeild Íslandsbanka telur fram fjórar ástæður fyrir hækkuninni:

Í fyrsta lagi, getur verið að fjárfestar telji að markaðurinn hafi vanmetið virði félaganna sem sett hafa verið í sölumeðferð og því sé í raun um verðleiðréttingu að ræða.

Í öðru lagi, má gera ráð fyrir að fjárfestar telji að væntanlegir kaupendur verðmeti félögin sem mynda Icelandair Group og önnur félög í sölumeðferð hærra en er fólgið er í núverandi markaðsverði FL Group.

Þær væntingar eru háðar því að hugsanlegir kaupendur geri annaðhvort lægri ávöxtunarkröfu til félaganna en FL Group gerir eða að þeir séu reiðubúnir að greiða hærra verð vegna mögulegra samlegðaráhrifa.

Í þriðja lagi, getur verið að fjárfestar vænti þess að FL Group muni fjárfesta þeim fjármunum sem losna við sölu félaganna í arðbærari fjárfestingum en rekstri umræddra félaga.

Í fjórða lagi og að lokum er hugsanlegt að markaðurinn sé að ofmeta áhrifin af sölunni en það myndi eðli málsins samkvæmt kalla á leiðréttingu á gengi félagsins í framtíðinni. Eflaust mætti telja upp fleiri ástæður.