Greining Íslandsbanka segir niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sem Hagstofa Íslands birti í morgun bendi til þess að mikill gangur hafi verið á vinnumarkaði fyrsta mánuð ársins.

Í tölum Hagstofunnar kom meðal annars fram að þátttaka fólks á vinnumarkaði hefði aukist um eitt prósentustig milli ára og fjölgun vinnuaflsins hefði talið 5.000 manns. Starfandi fólki fjölgaði um 9.200 manns og hlutfallið jókst um þrjú prósentustig. Þá kom fram að atvinnulausum hefði fækkað um 4.300 manns milli ára og hlutfall atvinnuleysis minnkað um 2,5 stig.

„Benda tölurnar til þess að vinnuaflseftirspurn sé að aukast hraðar nú en verið hefur undanfarið, þó rétt sé að hafa í huga að talsverðar sveiflur geta verið í mánaðartölunum,“ segir í greiningunni.

Mesta fjölgun í sautján mánuði

Í greiningunni segir að alls hafi 178.200 manns verið starfandi í janúar sl. sem jafngildir 5,4% fjölgun frá sama tíma í fyrra, eða sem nemur um 9.200 manns. Venjulegar vinnustundir í viku hverri hafi verið 38,8 klst. í mánuðinum, sem feli í sér fjölgun vinnustunda um 0,7 klst. á viku frá því í janúar í fyrra.

„Heildarvinnustundum fjölgaði því um 7,4% á milli ára samkvæmt rannsókn Hagstofunnar, sem er mesta aukning vinnustunda á þennan mælikvarða í 17 mánuði. Eins og sjá má af framangreindum tölum gerir hröð fjölgun starfandi gæfumuninn hvað þennan mikla vöxt varðar.“

Góð vísbending um hagvaxtarþróun

Þá er bent á að talsverð fylgni sé milli þróunar vinnustunda og hagvaxtar og vinnustundirnar gefi betri vísbendingu um umsvifin í hagkerfinu á hverjum tíma en bráðabirgðatölur Hagstofunnar um landsframleiðslu geri.

„Nýjustu tölur um landsframleiðslu ná aðeins til fyrstu níu mánaða síðasta árs, og samkvæmt þeim jókst hún um 0,5% að raunvirði á milli ára. Við teljum að þessar tölur verði endurskoðaðar talsvert upp á við, og að hagvöxtur í fyrra muni reynast nærri 2,0% líkt og Seðlabanki Íslands spáir en það samræmist ágætlega 1,9% fjölgun heildarvinnustunda það árið,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni hér .