Ísbúðin Ísland ehf. er gjaldþrota, en í gær birtist innköllun í Lögbirtingablaðinu frá skiptastjóra búsins. Félagið, sem rak samnefnda Ísbúð í Suðurveri, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 21. mars síðastliðinn.

Ísbúðin Ísland sérhæfði sig í náttúrulegum ís og seldi m.a. ís sem framleiddur var á bænum Holtseli í Eyjafjarðarsveit. Meðal bragðtegunda sem í boði voru má nefna bjórís, hundasúruís og lakkrís ís og þá var hægt að kaupa dúkasigtað skyr í versluninni að viðbættum venjulegum kúluís.

Hlédís Sveinsdóttir stofnaði ísbúðina árið 2010 og rak hún búðina um skeið áður en hún seldi hlut sinn. Fram kemur í ársreikningi fyrir árið 2011 að reksturinn var kominn í eigu Hressingarskálans ehf.