isec, sem er hliðarmarkaður Nordic Exchange á Íslandi, mun sameinast First North, sem er hliðarmarkaður OMX, þann 3. janúar, segir í tilkynningu. First North veitir smáum fyrirtækjum í vexti greiðan aðgang að norrænum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Íslenski hliðarmarkaðurinn mun taka upp heitið First North, sem og sameiginlegar reglur First North markaðarins.
Eftir inngöngu íslenskra félaga á First North mun markaðurinn bjóða upp á skráningu og viðskipti með hlutabréf í íslenskum, sænskum og dönskum krónum og evrum. Fyrirtækin geta þá einnig sinnt upplýsingagjöf á íslensku, ensku, sænsku, dönsku eða norsku. Félög á íslenska First North markaðnum verða hluti af heildarvísitölu First North sem einnig verður birt í íslenskum krónum.

?First North mun veita smáum íslenskum fyrirtækjum í vexti aðgang að stærsta veltusjóði Evrópu sem og aukinn sýnileika meðal fjárfesta. First North er næststærsti hliðarmarkaður Evrópu ef gengið er út frá fjölda fyrirtækja. Við teljum að First North veiti fyrirtækjum sem íhuga að fara á markað mikla möguleika, segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands.

Félögin á First North eru flokkuð í atvinnugreinar samkvæmt alþjóðlega GICS-staðlinum (Global Industry Classification Standard). Flokkun eftir atvinnugreinum gerir alþjóðlegan samanburð á fyrirtækjum auðveldan þar sem um vel skilgreinda og stóra hópa á sama sviði er að ræða.

Innleiðing á reglum First North á Íslandi þýðir m.a. að viðurkenndir ráðgjafar munu í fyrsta sinn verða starfandi við hlið félaganna á markaðnum. Það hefur í för með sér að skráð félög verða að hafa ráðgjafa, viðurkenndan af Kauphöllinni, sem leiðir þau í gegnum skráningarferlið. Viðurkenndum ráðgjöfum ber einnig að fylgjast með því að fyrirtækin fari að reglum um upplýsingagjöf eftir að þau eru komin á skrá.