Ísey skyr bar hefur opnað útibú í Helsinki í Finnlandi, og stefnir á að opna tugi til viðbótar þar í landi á næstu fimm árum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Staðurinn notar einungis Ísey skyr og þar eru notaðar sömu uppskriftir og hér á Íslandi, en Finnar borða mikið af Ísey skyri. Til gamans má geta að hvergi í heiminum finnst jafn mikið af Ísey skyr bragðtegundum og einmitt í Finnlandi, svo við vitum að þessi bar á eftir að leggjast vel í Finna,“ er haft eftir Sigríði Steinunni Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Ísey skyr bar. „Þetta er fyrsti Ísey skyr bar sem við opnum á erlendri grundu og er hann staðsettur í stórri verslunarmiðstöð í Helsinki.“

Sagt er að gangi allar áætlanir eftir verði þetta einungis fyrsti skyrbarinn þar í landi af mörgum, en til standi að opna yfir 25 Ísey skyr bari í Finnlandi á næstu 5 árum, auk þess sem stefnt sé á fleiri markaði í náinni framtíð.

Loks er greint frá því að hér á landi standi til að opna þrjá nýja staði fyrir árslok: í Kringlunni, Smáralind og Skeifunni.