Verðbólguspá IFS greiningar fyrir júlí hljóðar upp á 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 11,1%. Verðbólgan síðastliðna 3 mánuði mun mælast 9,4% á ársgrundvelli ef spá þeirra gengur eftir.

Samkvæmt verðkönnun þeirra voru töluverðar hækkanir á matvöru milli júlí og ágúst. Samtals hækkuðu matvörur um 0,75% sem hefur um 0,11% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Mjólkurvörur hækkuðu um 3,5% líkt og áður hafði verið tilkynnt um, sömuleiðis voru verulegar hækkanir á grænmeti og ávöxtum.

IFS greining bendir á að flestum sumarútsölum lauk í síðustu viku. Lækkun sem var á fatnaði í síðasta mánuði gengur því til baka í ágúst og gerum þeir ráð fyrir um 5% hækkun á fatnaði sem hefur tæplega 0,3% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.