Ísfélag Vestmannaeyja skilaði um 24,8 milljóna dala hagnaði árið 2014. Rekstrartekjur námu 105,8 milljónum dollara og EBITDA framlegð var 24,4%. Í fyrra skilaði félagið 26,4 milljónum dala í hagnað og var EBITDA framlegð 33%.

Eignir samstæðunnar námu 279,8 milljónum dala og var bókfært eigið fé í árslok 130,6 milljónir dala. Þá námu rekstrargjöld 79,9 milljónum dala. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 46,7%.

Laun og launatengd gjöld námu 25,8 milljónum dala eða um 3,3 milljörðum íslenskra króna. Heildarlaun og þóknanir til stjórnenda samstæðunnar á árinu 2014 námu 1,4 milljónum dala eða um 180 milljónum íslenskra króna.

Í árslok 2014 voru 137 hluthafar í félaginu en voru 139 í ársbyrjun. ÍV fjárfestingafélag ehf. á um 88% útistandandi hlutafjár og er eini hluthafi félagsins sem á yfir 10%.