Hardhaus mun fá nafnið Álsey VE 2. Skipið var smíðað árið 2003 og er útbúið bæði til flottrolls- og nótaveiða. Það er 68,8 metra langt og 13,8 metra breitt. Lestarnar eru 12 talsins, samtals 1.955 rúmmetrar. Það er með 6.120 hestafla Wartsila aðalvél.

Ísfélagið er með rúmlega 13.000 tonna loðnukvóta og gerir nú út þrjú uppsjávarskip, þ.e. Sigurð VE, Heimaey VE og nú Álsey VE (Hardhaus).

Eyþór Harðarson útgerðarstjóri segir að loðnvertíð sé varla hafin ennþá hjá Ísfélaginu. Farnir hefðu verið þrír túrar og tekin um 1.000 tonn í frystingu.

Beðið eftir hrognum

„Við erum að bíða eftir hrognunum. Við værum auðvitað að gera miklu meira ef kvótinn væri stærri en við þurfum að eiga þetta til góða fyrir hrognin.“

Óljóst er ennþá hvaða verð fást fyrir hrognin en þó er víst að verðmætin gerast ekki hærri í loðnuafurðunum. Allt bendir til þess að mikil eftirspurn verði eftir vörunni.

„Það eru auðvitað tímamót þegar bætist í flotann og við veðjum á það að það verði næg verkefni fyrir svona skip í framtíðinni. Nú erum við með þrjú uppsjávarskip. Við seldum Álsey fyrir tveimur sem er 17 árum eldra en Hardhaus. Í ljósi betra útlits með uppsjávarveiðar teljum við okkur þurfa þrjú skip til þessara veiða,“ segir Eyþór.

Þegar uppsjávarveiðar hafa staðið sem hæst hefur Ísfélagið dregið úr bolfiskveiðum sínum. Sá háttur verður hafður á að það þessu sinni að áhöfnin á bolfiskskipinu Ottó N. Þorlákssyni fer yfir á nýju Álsey meðan á uppsjávarveiðum stendur. Áhöfnin verður því jafnt á bolfisk og uppsjávarfisk eftir aðstæðum hverju sinni. Eyþór minnir á að áður fyrr hafi menn verið á hinum ýmsu veiðarfærum án þess að það hafi komið að sök. Margir hafi líka stundað uppsjávarveiðar áður á ferlinum.

Eyþór segir líklegt að skipið haldi til loðnuveiða undir merkjum Ísfélagsins strax eftir helgi. Líklega verði loðnan orðin hrognatæk fyrstu dagana í mars og veiðin þá helst í Faxaflóanum. „Það er loðna ansi víða og við erum bjartsýnir að það sé glimrandi gott stand á þessu,“ segir Eyþór.