Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur gert samning um kaup á öllum hlutabréfum í útgerðarfélaginu Dala-Rafni ehf. sem gerir út togbátinn Dala-Rafn VE 508. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 2007. Aflaheimildir félagsins á yfirstandandi fiskveiðiári eru tæp 1.600 þorskígildistonn.

Í tilkynningu frá Ísfélaginu segir að kaupin séu liður í hagræðingaraðgerðum Ísfélags Vestmannaeyja hf., ekki síst í kjölfar sífellt aukinnar skattheimtu stjórnvalda á útgerðarfélög. Með kaupunum styrki Ísfélagið mjög veiðar og vinnslu félagsins á bolfiski.

Ísfélagið rekur fjölþætta fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Félagið gerir út 6 skip og hefur eitt í smíðum í Tyrklandi.