Ísfell hefur fest kaup á fasteigninni Óseyrarbraut 40, sem stendur á nýrri uppfyllingu við Hafnarfjarðarhöfn og hýsti áður Skipasmíðastöðina Ósey. Skipasmíðastöði varð gjaldþrota í sumar en hafði yfir að ráða 3.560 fermetra húsnæði með mikilli lofthæð og góðu útisvæði.

í fréttatilkynnningu frá Ísfelli kemur fram að ætlunin sé að sameina alla starfsemi Ísfells í Reykjavík og Hafnarfirði á einn stað, en jafnframt hafa samningar tekist um sölu á fasteign Ísfells á Fiskislóð í Reykjavík.

Ísfell er eitt öflugasta fyrirtæki á sviði veiðarfæraþjónustu á Íslandi. Fyrirtækið rekur alhliða heildsölu með útgerðarvörur og björgunar- og rekstrarvörur á Fiskislóð í Reykjavík og Óseyrarbraut í Hafnarfirði auk útibús á Bolungarvík. Jafnframt rekur það veiðarfæragerðir á sjö stöðum á landinu undir nafninu Ísnet. Starfsstöðvar Ísnets eru í Hafnarfirði, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum, á Sauðárkróki, Húsavík, Hornafirði og Akureyri.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að uppfyllingu til að auka athafnasvæði Hafnarfjarðarhafnar og höfnin hefur lagt sig fram um að skapa góða aðstöðu til þjónustu við fiskiskip bæði innlend og erlend. Þetta hefur borið þann ávöxt að Hafnarfjarðarhöfn er orðin ein helsta löndunar- og umskipunarhöfn á Íslandi með sívaxandi þjónustu við útgerðaraðila. Má í því sambandi nefna þurrkvíar Vélsmiðju Orms og Víglundar, stórar frystigeymslur Eimskips, Hafnarbakka, Atlantsolíu, höfuðstöðvar SÍF og fjölda annarra þjónustuaðila. Ísfell bætist nú í þennan hóp og telur staðsetninguna henta vel rekstri sínum og þjónustu við viðskiptavini.

Á næstu mánuðum verður unnið að nauðsynlegum breytingum á húsnæðinu til að henta þörfum Ísfells. Komið verður upp stórum rekkalager fyrir heildsölustarfsemina og aðstaða innréttuð fyrir söludeild fyrirtækisins. Fullkomið troll- og flottrollsverkstæði Ísnets í Hafnarfirði verður einnig flutt í nýja húsið ásamt víraverkstæði. Flutningur á starfsemi Ísfells í nýja húsnæðið er fyrirhugaður í byrjun næsta árs.