Undirritaður hefur verið samningur um kaup Ísfells ehf. á rekstri Dímon línu ehf. Samningurinn tekur til umboðs fyrir vörur, einkum til línuveiða, og til vörubirgða.

Í tilkynningu segir að flestir starfsmenn Dímon Línu muni halda áfram störfum hjá nýjum eigendum. Starfsemi Dímon línu verður til að byrja með áfram að hluta til í núverandi húsnæði að Héðinsgötu 1-3 en á næstu vikum er stefnt að flutningi hennar í húsnæði Ísfells að Óseyrarbraut 28 í Hafnarfirði.

Ísfell hóf starfsemi snemma árs 1992. Nú starfa 55 manns í sex starfsstöðvum Ísfells á Íslandi og 35 manns til viðbótar í þremur starfsstöðvum á Nýfundnalandi og Nova Scotia í Kanada.

Rekstur Dímon línu má rekja til ársins 1994. Arnór Stefánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins, hefur á síðustu árum tekið þátt í uppbyggingu verksmiðju á eigin vegum til framleiðslu á ryðfríum línukrókum á Indlandi og í tilkynningunni segir að hann hyggist einbeita sé að frekari vexti á því sviði á næstu árum.

Samkeppniseftirlitið fjallaði um viðskipti Ísfells og Dímon línu án athugasemda.