Ísfell ehf. hóf nýlega rekstur á netaverkstæði í Sisimiut á vesturströnd Grænlands. Hluthafar og samstarfsaðilar í hinu nýja fyrirtæki eru Ísfell ehf. og Hanseraq Enoksen útgerðarmaður í Sisimiut sem meðal annars rekur útgerðarfélagið Angunnguaq AS. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Rekstrarstjóri hjá Ísfell Sisimiut er Jörgen Poulsen. Isfell Sisimiut AS mun bjóða veiðarfæri og helstu rekstrarvörur fyrir skip og fiskvinnslur auk úrvals af hífibúnaði og vinnufatnaði fyrir verktaka og iðnaðarmenn.

Sisimiut er norðan við heimskautsbaug og þar búa um 5.500 manns. Góð hafnaraðstaða er í Sisimiut og er höfnin opin allt árið en höfnin er stærsta löndunarhöfn sjávarafurða í Grænlandi. Mörg af stærri útgerðarfyrirtækjum í Grænlandi landa hluta af afla sínum í Sisimiut ásamt erlendum skipum sem veiða við Grænland og Kanada.

Með tilkomu þessa nýja fyrirtækis, er Ísfell ehf. nú með starfsemi í þremur löndum.  Auk starfseminnar á Grænlandi eru höfuðstöðvar og sjö netaverkstæði á Íslandi og dótturfyrirtæki í St. John‘s á Nýfundnalandi sem rekur netaverkstæði og heildverslun fyrir útgerðir sem stunda veiðar við strendur Kanada og undan Nýfundnalandi.