Subway mun loka veitingastað sínum á Ísafirði þann 1. september næstkomandi, en vefur Bæjarins besta greindi frá því í síðustu viku. Ingibjörg Eðvaldsdóttir, mannauðsstjóri Stjörnunnar ehf., rekstraraðila Subway á Íslandi, segir að engin áform séu um frekari hagræðingu. Staðnum á Ísafirði hafi einfaldlega verið lokað vegna lélegrar aðsóknar.

„Þeir skila sér ekki, bæjarbúarnir, inn á staðinn þrátt fyrir að þetta sé ódýr, hollur og góður skyndibiti,“ segir Ingibjörg í samtali við Viðskiptablaðið. Viðurkennir hún að Subway hafi búist við því að aðsókn á staðinn yrði betri.

„Við áttum von á því þar sem þau sóttu hart að okkur að opna staðinn.“