Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vill að jarðgöng milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur annars vegar og Ísafjarðar og Súðavíkur hins vegar verði sett inn á svæðisskipulag. Þetta kom fram á fundi ráðsins þar sem kynnt var greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Greinargerðin var lögð fram í nóvember 2002 en var lögð að nýju fyrir bæjarráð í kjölfar umræðna á síðasta fundi bæjarstjórnar ein og kemur fram í frétt Bæjarins besta.

Þar kemur ennfremur fram að á þeim fundi tóku bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar undir efasemdir Guðna Geirs Jóhannessonar formanns bæjarráðs um gerð svokallaðra snjóflóðaskápa á Kirkjubólshlíð. Telur Guðni Geir heppilegra að stefna að gerð jarðganga á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókaði að það legði áherslu á að full ástæða væri fyrir sveitarfélögin við Djúp að knýja á um jarðgöng því þau séu eini raunhæfi valkosturinn með tilliti til öryggis í samgöngumálum á milli byggðarlaga á svæðinu. Bæjarráð segir að sveitarfélögin eigi að taka höndum saman og setja umrædd jarðgöng á svæðisskipulag. ?Bættar og öruggar samgöngur styrkja Ísafjörð sem byggðakjarna fyrir Vestfirði?, segir í bókun ráðsins. Þá óskar bæjarráð Ísafjarðarbæjar eftir fundi með Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhreppi vegna samgöngumála og annarra sameiginlegra hagsmunamála segir í frétt Bæjarins besta.