Fiskvinnslan Ísfiskur, sem á dögunum sagði öllu eða um 40 starfsmönnum sínu á Akranesi upp störfum, hefur fengið jákvæða afgreiðslu á lánaumsókn sinni hjá stjórn Byggðastofnunar.  Framkvæmdastjóri félagsins, Albert Svavarsson, segir hins vegar í samtal við héraðsfréttavefinn skessuhorn.is að fyrirgreiðslan sé háð uppfylltum skilyrðum sem félagið þurfi tíma til að uppfylla.

Óvissa er því enn um framtíð félagsins og starfsemi þess á Akranesi, en Albert er vongóður um að fyrirtækinu takist að koma til móts við kröfur stjórnar Byggðastofnunar á næstu dögum.

„Ég er vongóður og vona innilega að starfsfólk okkar geti fengið jákvæð tíðindi fyrir mánaðamótin,“ segir Albert í samtali við Skessuhorn.