Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,16%, í 2.190,06 stig í viðskiptum dagsins í kauphöll Nasdaq á Íslandi. Í heildina námu viðskiptin 2,2 milljörðum króna í dag, en jafnmörg félög hækkuðu í virði og lækkuðu, eða 9 hvor.

Mest hækkun var á gengi bréfa Iceland Seafood International, eða um 2,88%, og fór gengi bréfanna upp í 8,57 krónur í 220 milljón króna viðskiptum, eða 10% heildarviðskipta dagsins á hlutabréfamarkaði.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 2,59%, í töluvert minni viðskiptum þó eða fyrir 24 milljónir króna, en lokagengi bréfa félagsins var 27,70 krónur. Þriðja mesta hækkunin var á bréfum Festi, sem fóru upp um 1,04%, í 146 krónur, í 249,4 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru þau þriðju mestu í kauphöllinni í dag.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Arion banka, eða fyrir 714 milljónir króna, en bréf bankans hækkuðu um 0,27%, upp í 75,20 krónur. Bréf Marel hækkuðu jafnmikið í næst mestu viðskiptum dagsins, eða fyrir 392,6 milljónir króna, og fóru bréfin í 741 krónur.

Mest lækkun var hins vegar á bréfum Icelandair, eða 2,54% í 9 milljóna viðskiptum og endaði verð þeirra í 1,15 krónum. Næst mesta lækkunin var á bréfum Haga, eða um 1,49%, og fóru þau niður í 49,55 krónur, í 20 milljóna viðskiptum. Loks lækkuðu bréf Vís um 1,14%, í 92 milljóna viðskiptum sem færðu bréfin í 10,43 krónur.

Bandaríkjadalur styrktist gagnvart íslensku krónunni í viðskiptum dagsins um 0,49%, og fæst hann nú á 139,77 krónur, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag styrktist dalurinn gagnvart helstu viðskiptumyntum sínum samhliða aukinni óvissu á mörkuðum.

Japanska jenið sem einnig er almennt álitin trygg mynt á óvissutímum hækkai jafnvel enn meir, eða um 0,78% upp í 1,3184 gagnvart krónunni. Evran, svissneski frankinn og danska krónan hækkuðu einnig, eða um 0,24%, í 164,75 krónur, um 0,42%, í 152,46 krónur og 0,24% í 22,142 krónur.

Breska pundið lækkaði hins vegar um 0,53%, niður í 182,21 krónur, norska krónan lækkaði um 1,26% niður í 15,365, og sænska krónan lækkaði um 0,04%, niður í 15,857 krónur.