*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 25. febrúar 2021 17:40

ISI og Sýn hækka eftir uppgjör

Fjárfestar tóku vel í ársuppgjör Iceland Seafood og Sýn en félögin tvö hækkuðu mest í viðskiptum dagsins.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Félögin Iceland Seafood International (ISI) og Sýn hækkuðu mest í 2,1 milljarðs króna veltu Kauphallarinnar í dag en bæði félög birtu ársreikninga í gær. 

Iceland Seafood hækkaði mest allra félaga eða um 4,8% í 143 milljóna króna veltu. Í ársuppgjöri ISI kom fram að hagnaður fyrir skatta hafi meira en helmingast milli ára. 

Fjarskiptafélagið Sýn hækkaði um 4,4% í 59 milljóna króna viðskiptum. Félagið tapaði 405 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 1,7 milljörðum árið 2019, samkvæmt ársreikningi sem var birtur eftir lokun Kauphallarinnar í gær. 

Festi lækkaði mest allra félaga í dag eða um 2,2% í 96 milljóna króna veltu. Festi birti einnig ársuppgjör 2020 í gær en þar kom fram að hagnaður félagsins hafi numið 2,8 milljörðum króna samanborið við 2,8 milljarða króna hagnað árið 2019. Árið 2020 var metár hjá dótturfyrirtækjunum Krónunni og Elko en tekjur olíufyrirtækisins N1 drógust saman um 18%.