Stjórn Iceland Seafood International (ISI) hefur ákveðið að yfirgefa Bretlandsmarkað, þar sem rekstur breska dótturfélagsins Iceland Seafood UK hefur gengið erfiðlega á síðustu þremur árum. Félagið hefur falið ráðgjafarfyrirtækinu MAR advisors að leiða söluferlið.

„Frammistaðan í Bretlandi hefur grafið undan arðsemi samstæðunnar að því marki að stjórnin telur að ekki sé réttlætanlegt að halda áfram á sömu braut,“ segir í uppgjörstilkynningu félagsins.

Í árshlutareikningi Iceland Seafood kemur fram að félagið hafi fært niður viðskiptavild vegna Iceland Seafood UK að fullu, eða um 1,6 milljónir evra. Það samsvarar um 238 milljónum króna miðað við gengi dagsins.

Árið 2020 ákvað Iceland Seafood að sameina bresku dótturfélög sín í eitt félag, Iceland Seafood UK, í nýrri verksmiðju í Grimsby. Sameiningarferlið reyndist ISI flóknara og kostnaðarsamara en lagt var upp með og lýsti félagið því að aðstæður vegna COVID-19 og óvissu í kringum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafi sett strik í reikninginn.

Iceland Seafood segir að stjórnendur félagsins hafi varið miklum tíma í að vinna úr aðstæðunum sem sköpuðust í Bretlandi fremur en að sækja vaxtartækifæri annars staðar.

„Þrátt fyrir að komist var að þeirri niðurstöðu að starfsmein i Bretlandi passi ekki inn í stefnumörkun Iceland Seafood lengur, þá getur hin frábæra aðstaða og sterkur stjórnendahópur í Grimsby verið góð viðbót fyrir önnur fyrirtæki í geiranum,“ segir í tilkynningu ISI til Kauphallarinnar.

Færa afkomuspána niður

Iceland Seafood tilkynnti fyrir rúmum mánuði að félagið hefði fært niður spá sína um aðlagaðan hagnað í ár niður úr 9,0-14,0 milljónum evra í 4,0-7,0 milljónir evra. Í uppgjörstilkynningunni segir að afkomuspáin hafi verið færð frekar niður í 3,0-5,0 milljónir evra, en nýja spáin nær ekki til rekstursins í Bretlandi á síðustu tveimur mánuðum ársins vegna framangreindrar ákvörðunar.

Aðlagaður hagnaður Iceland Seafood International (ISI) fyrir skatta (e. normalised PBT) nam 2,3 milljónum evra, eða um 330 milljónum króna, á þriðja ársfjórðungi. Eftir taprekstur á fyrri árshelmingi er aðlagaður hagnaður fyrir skatta því um hálf milljón evra eða um 70 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins.