Iceland Seafood International (ISI) og Icelandic Trademark Holding, félag sem Framtakssjóður Íslands stofnaði á sínum tíma utan um vörumerkin „Icelandic“ og „Icelandic Seafood“, hafa komist að samkomulagi sem gerir ISI kleift að nota fyrrnefnd vörumerki í Evrópu. Er um langtímasamkomulag að ræða sem ætlað er að styrkja markaðssetningu íslenskra hágæða sjávarafurða á evrópskum markaði, að því er kemur fram í tilkynningu frá ISI.

Umrædd vörumerki voru „afhend íslensku þjóðinni til eignar“ í apríl árið 2018, að því er kemur fram í frétt á vef Framtakssjóðs Íslands . Skömmu áður en vörumerkin voru afhend forsætisráðherra lauk umræddur framtakssjóður starfsemi sinni. Umsjón vörumerkisins var svo afhend yfir til Íslandsstofu síðastliðið sumar.

Í tilkynningu ISI fagnar Bjarni Ármannsson, forstjóri félagsins, samkomulaginu. „Það er sönn ánægja að hafa undirritað samkomulag sem tryggir Iceland Seafood langvarandi rétt á að nota Icelandic Seafood vörumerkið. Við höfum notast við vörumerkið í Suður-Evrópu um langt skeið með góðum árangri fyrir okkur, sem og okkar viðskiptavini og framleiðendur. Nú munum við leggja áherslu á að styrkja vörumerkið enn frekar og einnig notast við það á mörkuðum okkar í Norður-Evrópu.

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Icelandic Trademark Holding, segir samkomulagið vera frábært skref fyrir Icelandic vörumerkið. „Samkomulagið við Iceland Seafood mun auka útbreiðslu og notkun vörumerkisins í Evrópu. Icelandic vörumerkið hefur verið notað í viðskiptum á bandarískum markaði svo áratugum skiptir með góðum árangri.